Flutningur

asdfasdf


Heimavinnandi húsfreyja :)

Nú er sældarlíf hjá mér, við erum búin að koma okkur fyrir í nýju íbúðinni sem er alveg stórfín og risastór líka. Skólinn er búinn og ég er búin að skila öllum verkefnum. Svo er ég líka hætt að vinna í bili en í staðinn sit ég heima pg prjóna, hangi í tölvunni, stússast eitt og annað og sem mér dettur í hug.

Það er nú ennþá örugglega vika í að litla krílið láti sjá sig og kannski mun lengri tími! Ég nýti bara tímann til að sofa vel og oft og lengi og prjóna enn eina flíkina...

Kv. Auður Agla


Skólalok - annarlok - nýtt upphaf

Nú er svo sannarlega komið vor. Allar kennslustundir í náminu mínu eru búnar og nánast öll verkefnin líka. Þá er nú alveg nauðsynlegt að fagna því með svona eins og einni bloggfærslu. Við erum óðum að flytja og verðum flutt í nýja íbúð eftir nokkra daga. Gærdagurinn fór í flutninga á húsgögnum og stærri hlutum og um helgina ætla ég að dunda mér við að raða og skipuleggja og gera huggulegt -vá hvað ég hlakka mikið til!

Hef þetta ekki lengra í bili, kv. Auður Agla


Hátæknimargmiðlun!

Nú er mars að klárast og það er að koma vor þó að veturinn virðist aðeins ætla að setja svip sinn á umhverfið þessa dagana. Í gær fór ég í heilmikinn leiðangur með mömmu sem snerist bara um litla krílið sem er væntanlegt í heiminn innan nokkurra vikna! Nú er búið að fylla vesturbrúnina af ótrúlegustu hlutum svo þau gætu örugglega gerst dagforeldrar með allt þetta barnadót; vagn, kerra, bílstóll, vagga og ég veit ekki hvað og hvað. Það vantar voða lítið nema að flytja í nýja íbúð og vinna og klára námið :)

 Kv. Auður Agla


Orðaskrípi

Þegar maður horfir eða hlustar á fréttir með aðeins öðru auga/eyra en venjulega verður maður var við ýmislegt skrítið. Eitt af því er orðavalið og setningauppbyggingin.

Það eru t.d. tvö orð sem eru geysilega mikið notuð í fréttum, auglýsingum og alls kyns umfjöllunum og ef einhver treystir sér til að skýra þau fyrir mér þá væri það hugsanlega skemmtilegt...

Í fyrsta lagi er það orðið MARGMIÐLUN. Hvað í ósköpunum er þetta? ég sá í síðustu viku auglýsta 
til sölu margmiðlunartölvu. Hvers lags tölva það er kom hvergi fram. Ég velti því fyrir mér góða stund hvað
slík tölva hefði upp á að bjóða sem ég þyrfti nauðsynlega á að halda í lífi mínu og komst að því að það 
getur varla verið mikið, a.m.k. í bili. Ég fór að hugs hvort ég sjálf gæti ekki alveg eins verið margmiðlari; 
ég get miðlað hlutum í talmáli, rituðu máli, líkamstjáningu hugsanlega nú eða tónlist, ég get teiknað 
tiltekið atriði o.s.frv. auk þess sem ég get miðlað til margra! -> Ég hlýt að vera margmiðlari. 

Hitt orðið hefur mér lengi verið mjög hugleikið. Það er orðið HÁTÆKNI! Hvað er hátækni, er hún eitthvað
öðruvísi en önnur tækni, hver segir hvaða tækni telst hátækni og hvaða er bara tækni. Er gsm síminn minn hátækni eða bara ómerkileg tækni? En tölvan mín
bíllinn minn, heilinn minn, sjónvarpið og allt hitt draslið sem maður heldur að maður geti ekki verið án?

Læt þetta duga um íslenskt mál í bili.
Kv. Auður Agla 

 

 


Fínt að hafa svona bloggsíðu

Það er fínt að hafa svona bloggsíðu sem fæstir vita af og enginn les :) Nú fer að styttast í vorið. Það er heldur betur farið að birta og það er komin svona vorlykt í loftið.

Það eru líka að koma páskar og á eftir páskunum ætlum við að flytja okkur um íbúð og svo að eignast 
barn í kjölfarið. Einhvers staðar þarna inn á milli vinnu og flutninga, þreytu og páskaeggja mun ég
finna mér smá tíma til að klára námið :) Koma tímar, koma ráð.

 Kv. Auður ólétta 


já ég held það

Alla vega aFrekuðum við Lára heilan helling í pökkunarsamvinnunni um daginn! Það hreinlega hvarf ofan í kassana dótið ;) -eða svona næstum því alla vega. Verst var að bakið á mér er ekki gert fyrir svona og manni hefnist greinilega fyrir að hlífa sér ekki.

það nýjasta sem ég frétti var að ég mætti skrifa um allt milli himins og jarðar á þessa bloggsíðu mína svo núna gætu farið að koma færslur sem fjalla ekki um kennslu, nemendur, skóla og nám!

Í dag á Ágústa Rut 1 árs afmæli og óska ég Lindu og Andra til hamingu með það :) Litla rúsínan er að verða stórt barn.

Annars gengur allt vel, sé fram á að þurfa aðeins að taka á honum stóra mínum til að þetta hafist allt í vor, þ.e.a.s. námið, vinnan, íbúðaflutningur og barneignir.

 Bestu kveðjur Auður Agla


Skiptir samvinna máli?

Skiptir samvinna / hópvinna máli? Hvenær og hvernig?

Í sögulegu tilliti hefur samvinna og hópvinna ekki notið mikilla vinsælda við kennslu í raungreinum og bæði verkleg kennsla sem og bókleg kennsla hafa að megninu til verið tileinkaðar einstaklingnum og hver nemandi hefur unnið sín verk í hljóði. Þetta hefur breyst á síðustu árum og notkun samvinnu og hópvinnu hefur aukist í skólastarfi. Það verður æ fleiri ljóst að samvinna og hópvinna skiptir máli í námi og ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að það getur hreinlega skipt töluverðu máli eins og kemur fram í grein Joan Solomon; Group discussions in the classroom. Þar kemur einnig fram að þeir þættir sem samvinna og hópvinna nemenda hefur góð áhrif á eru til dæmis að nemendur viðra skoðanir sínar, geta séð fleiri lausnir á ákveðnum málum og atriðum eða sannfærast um að það sem þeir héldu er ekki heimskulegt. Oft virðast nemendur hafa þörf fyrir samþykki annnarra fyrir því sem þeir halda. Samtöl milli nemenda æfa þá í að koma skoðun sinni á framfæri og rökstyðja hana, tjá sig og hlusta á skoðanir annarra um leið.


Það eru til ýmsar leiðir til að gera hópvinnu árangursríkari. Góður kennari leiðir samræður á faglegar brautir og kemur í veg fyrir að nemendur bíði eftir “rétta” svarinu frá kennaranum heldur eru nemendur frjálsir í umræðu sinni og óþvingaðir. Það getur verið gagnlegt að láta nemendur ræða saman fyrir verklega æfingu, við hverju búast nemendur og af hverju? Það getur líka verið sniðugt að skapa umræður og / eða hópavinnu eftir lítinn eða stóran fyrirlestur hjá kennara og leyfa nemendum að vinna úr efninu, tengja það við ný atriði (hugsanlega í daglegu lífi) og dýpka skilning sinn á því sem kennarinn var að tala um í gegnum hópavinnu.


Það eru óendanlega margir möguleikar á samvinnu nemenda og hópvinnu og hópverkefnum. Möguleikarnir takmarkast einungis af hugmyndaflugi kennarans og hugsanlega peningalegu hliðinni í einhverjum tilfellum. Hvernig það á að útfæra hópvinnu fer algjörlega eftir efninu, áherslum og tíma. Í mínum huga getur hópvinna falist í allt frá 2-3 mínútna spjalli eða rökræðu milli tveggja sætafélaga upp í geysistór verkefni sem unnin eru í stórum hópum, bæði utan og innan skóla. Hvað upp úr því fæst veltur á gæðum verkefnisins og eftirfylgni kennarans, samvinnu nemenda og hvatningu.

Auður Agla kennslukona!


Janúar og allt að fara af stað aftur eftir jólin...

Ég ákvað, mér til skemmtunar, að skella hér inn einni færslu sem er ekki kennslufræðitengd. Það hefur neflilega komið í ljós að svo virðist sem einhverjir viti af þessari bloggsíðu og kíki hér inn stöku sinnum! Þetta kom mér nú barasta á óvart, ég hélt eiginlega að enginn færi á þessa síðu nema ég sjálf og hugsanlega kennarinn minn sem verður líklega að gera það vegna starfs síns ;)

 

Ég er löngu byrjuð að vinna á Ísor aftur eftir jólin og skólinn er svona að skríða af stað aftur. Mér finnst alltaf pínulítið erfitt að byrja aftur eftir jólafríið, mig langar bara að vera áfram heima og prjóna, púsla, spila og borða góðan mat!


Marimbasveitin í Hafralækjarskóla

 

 

 

Gleðilegt ár og farsælt komandi ár! Hér kemur enn ein færslan um kennslu og efni tengdu því.

Fyrir nokkrum árum var ég stödd í virkjun Landsvirkjunar í Laxá í Þingeyjarsveit í góðum félagsskap :) Þar var í gangi einhvers konar listasýning með ýmsum uppákomum. Eina atriðið sem ég man eftir var hópur barna og unglinga úr Hafralækjarskóla í Aðaldal sem komu og spiluðu saman á marimbur. Já einmitt, marimbu af öllu. Þa' er ekki nóg með að ég muni bara eftir þessu eina atriði heldur hefur það verið mér sérlega hugleikið síðan. Ég vissi varla hvað marimba var áður en ég sá þetta og hafði aldrei í lífinu heyrt spilað á þetta hljóðfæri í hljómsveit. Upplifunin var æðisleg, krakkarnir voru ótrúlega góð, samstíga og skemmtileg í flutningi sínum. Í sveitinni á þessum tíma voru ólíkustu krakkar, íþróttastrákar, stelpa með kolsvart, litað hár, litlir og stórir, feitir og mjóir. Af útliti að dæma virtust þau einfaldlega hafa mjög fátt sameiginlegt heldur koma úr ýmsum áttum og stefna í ýmsar áttir en þarna mættust þau öll og það mátti ekki á milli sjá hvar spilagleðin var mest. Nú hef ég aflað mér nánari þekkingar á þessu uppátæki og bakgrunninum.            Í Hafralækjaskóla er í gangi fjölmenningarlegt tónlistarverkefni sem hófst að frumkvæði Tónlistarskóla Hafralækjarskóla í Aðaldal, Suður-Þingeyjarsýslu árið 2003 þar sem unnið er með afrísk hljóðfæri – marimbu – mbira – djembe og framandi tónlist, söng og dans, aðallega frá Zimbabwe og suðurhluta Afríku. Markmiðin eru víðtæk, m.a. að víkka tónlistarreynslu og heimsmynd nemenda, læra á framandi hljóðfæri, auka hæfni nemenda sem tónlistarmanna og, það sem vakti mína athygli sérstaklega, að þróa viðeigandi kennsluaðferðir. Já þetta eru markmið fyrir nemendurna en ekki kennara því nemendurnir sjálfir eru kennararnir! Þetta toppaði nú eiginlega alveg álit mitt á þessu verkefni. Á haustdögum 2007 var viðtal við forsprakka þessa verkefnis. Sá er norskur en nafnið man ég ekki og finn ekki í fljótu bragði. Hann kvaðst nú eiginlega ekki vilja titla sig sem kennara því að nemendurnir kenndu hver öðrum. Hann benti á að það vill oft gleymast að krakkar geta verið mjög góðir kennarar annarra krakka. Hann vildi meina að þeir hefðu oft forskot á kennarann. Krakkarnir skilja svo vel hvert annað, hvernig er best að læra, hvernig er best að útskýra, af hverju eitthvað gengur ekki eða gengur vel o.s.frv. Ég held að hann hafi hitt naglann á höfuðið. Það gleymist örugglega of oft hversu vel krakkar eru til þess fallnar að kenna öðrum börnum. Auðvitað eru á því takmarkanir eins og öðru og ég er ekki að meina að kennarar séu óþarfir en þetta mætti örugglega nýta meira í skólastarfi!              Í það minnsta gengur marimbuverkefni vonum framar. Nemendur hafa farið oftar en einu sinni utan til Svíþjóðar, Hjaltlandseyja og Færeyja til að halda tónleika og gefið út geisladisk. Nú eru starfandi 7-8 marimbusveitir innan skólans. Nemendur sveitanna hafa einnig haldið námskeið fyrir kennaranema úr Háskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands. Þetta finnst mér nú alveg frábært: Börn í litlum sveitaskóla eru orðnir háskólakennararJ. Og af hverju, jú þau hafa lært á einstakan hátt að miðla áfram kunnáttu sinni og virkja hvert annað. Það sem mestu máli skiptir; þau hafa feykilega gaman að.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband