Að læra nýja námsgrein er eins og að læra nýtt fag...

Að læra nýja námsgrein felst oft á tíðum í að læra mjög margt nýtt. Ný þekking, nýjar staðreyndir, nýjar rannsóknir og nýr hugsanaháttur. Þetta allt saman tilheyrir því að læra nýja grein. Síðast en ekki síst þarf að læra talsmátann og orðanotkunina sem tíðkast innan fagsins. Hvernig tala jarðfræðingar, tala þeir um steina? Nei þeir tala um berg, bergmoli og bergtegundir, í besta falli grjót. Hvað eiga jarðfræðingar við þegar þeir tala um silt, grunnstingull eða að vinna í felti? Segja má að þetta allt geti talist til orðanotkunar og talsmáta jarðfræðinnar, með öðrum orðum tungumál jarðfræðinnar. Með því að stunda nám í jarðfræði læra nemendur þessi orð og fjöldann allan í viðbót. Sum orðin eiga við daglega hluti en önnur eiga við sértæk fyrirbæri. Orðið sandur í jarðfræði merkir meira og annað en það sem við leggjum í merkingu orðsins í daglegu tali. Venjulega er sandur bara smákornótt bergmylsna sem finnst út um allt, í fjörum, sandkössum og út um allt land. Í jarðfræði á orðið sandur nánast bara við sanda á borð við Skeiðarársand og fleiri sanda á Suðurlandi. Sandar hafa þá orðið til vegna framburðar jökuláa sem renna um sandinn og í raun mynda hann.


Það sama má segja um tungumál kennslufræðinnar. Þar er eitt mest notaða orðið í náminu ígrundun. Ég hef þekkt þetta orð í áratugi og man raunar ekki eftir að hafa lært það sérstaklega. Ég veit hvað það þýðir og ég kann að nota það. Síðan hef ég nám í kennslufræði og þá er búið að aðlaga merkingu þess orðs að ákveðnu athæfi og framfaratæki fyrir kennara. Merking orðsins heldur sér þó að því leyti að það þýðir nákvæmlega að huga að starfi sínu og sjálfum sér í starfi þó að það eigi við ákveðinn hlut í kennslufræðilegu samhengi.


Fullyrðingunni í fyrirsögn þessa stutta texta hlýt ég því að vera sammála. Ný fræðigrein, ný námsgrein felur í sér nýtt tungumál. Ég er þó næstum því þeirrar skoðunar að ég vildi ekki taka svo djúpt í árinni að kalla þetta tungumál heldur myndi ég persónulega kjósa að kalla þetta tungutak. Þó má færa rök fyrir því að í einstaka greinum sé nánast hægt að tala um nýtt tungumál og tek ég þar mér nærtækt dæmi. Foreldar mínir vinna báðir á spítala sem heilbrigðisstarfsfólk. Þau hafa tileinkað sér það tungutak sem fylgir þeirra starfi og eins og gengur og gerist vill starfið stundum berast með heim og verða að umræðuefni, sérstaklega þar sem báðir hafa geysilegan áhuga á þessu. Ég hef stundum sagt að þau þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af að vera að rjúfa þagnarskylduna því við systkinin vorum og erum gjörsamlega ófær um að skilja þetta mál sem þau tala og liggur mér við að tala um nýtt tungumál. Þetta tungumál er náttúrulega upprunið úr latínu en frábrugðin henni að því leyti að hún hefur öðlast íslenskar beygingarendingar. Þetta kann að virka orðum aukið en fyrir mér er ekki svo. Manneskja sem ekki hefur jarðfræðilegan bakgrunn getur í flestum tilfellum áttað sig á t.d. um hvað samtal tveggja jarðfræðinga snýst, hvort það snýst um jarðhitasvæði eða jökla, eldfjall eða efnabreytingar. Það er því meira um að ræða mismunandi tungutak milli jarðfræðinganna tveggja annars vegar og leikmanna hins vegar.



Hvað merkir í mínum huga að læra jarðfræði?


Að læra mitt fag, jarðfræði, á háskólastigi er töluvert ólíkt því að læra jarðfræði í framhaldsskóla. Þegar ég var sjálf í menntaskóla voru margir þættir jarðfræðinámsins fremur þurrir og óáhugaverðir en í háskólanum var það allt öðruvísi. Í mínum huga hefur það einhvern veginn alls ekki sömu merkingu að læra jarðfræði í framhaldsskóla eins og að læra hana í háskóla. Í framhaldsskóla finnst mér það skipta mestu máli að efla vitund nemenda gagnvart umhverfi sínu og náttúrunni og að þau hafi lágmarksþekkingu á því um hvað jarðfræði snýst. Að læra jarðfræði merkir að skynja heildarmynd jarðarinnar og hringrása eins og t.d. vatnshringrásarinnar og berghringrásarinnar, skilja og skynja mikilvægi auðlinda í jörðinni og hvað það er gífurlega mikilvægt að vinna með náttúrunni en ekki á móti henni. Að læra jarðfræði merkir líka fyrir mér að opna augun fyrir fegurð náttúrunnar og sjá fegurðina í hinum ýmsu fyrirbærum sem fyrir augu ber. Að vita að það er ekki sjálfsagt að hafa Esjuna fyrir augunum eða geta farið á skíði í Hlíðarfjalli eða fengið hreint vatn, bæði heitt og kalt, úr krana í hverju húsi, að geta farið í sundlaugar allan ársins hring o.s.frv. Þetta er allt vegna jarðfræðilegra ferla og ég held það sé öllum hollt að muna að ekkert er sjálfgefið.
Nám í jarðfræði getur veitt nemendum kunnáttu til að geta útskýrt það helsta sem finnst í íslensku landslagi fyrir öðrum og sjálfum sér. Það er bæði til gagns og gamans að hafa hugmynd um t.d. myndun fjarða, fjalla, vatna og jökla. Einnig er mjög mikilvægt að allir séu vel upplýstir til þess að skilja hugmyndafræðina á bak við jarðvarmavirkjanir, vatnsaflsvirkjanir, grjótnám og nýtingu annarra auðlinda jarðarinnar sem skipta gífurlegu máli fyrir þjóðina, landið og umhverfið. Þegar verið er að taka stórar ákvarðanir t.d. hvað varðar virkjanir og umhverfismál, skiptir öllu máli að byggja skoðun sína og viðhorf á fræðilegum grunni og þar skipar jarðfræðinám og jarðfræðileg þekking grundvallarsess.
Í mínum huga merkir nám í jarðfræði eflingu á rökrænni hugsun þegar kemur að málefnum náttúru og auðlinda. Með námi í jarðfræði læra nemendur að umgangast náttúruna og meta hana að verðleikum.


Loksins loksins loksins loksins!

Jæja nú verður sko aldeilis tekið á því og bloggað!

2.kennslufræðiblogg: Um æfingakennslu í Borgarholtsskóla

Í haust hefur hópur nemenda úr kennslufræðinámi við Háskóla Íslands fengið að njóta fræðslu um framhaldsskólann í Borgarholti. Þetta hafa verið vikulegir fundir með ákveðnu þema eða efni í hvert sinn. Því miður var ég veik fyrsta fundinn og gat ekki komið. Mér skilst þó af bekkjarfélögum mínum að það hafi ekki komið að svo mikilli sök þar sem flest sem þar kom fram hefur einnig komið fram síðar. Sú heimsókn sem er hvað eftirminnilegust er líklega heimsóknin þar sem húsakynni Borgarholtsskóla voru kynnt og við gengum um stóran hluta skólans. Það var mjög gaman að sjá bíliðn- og málmiðnhlutana og ólíkt öllu því framhaldsskólastarfi sem ég hef áður séð eða kynnst. Mér fannst líka mjög gaman að sjá að athygli nemendanna á námi sínu virtist þar í mörgum tilfellum mun meiri en hjá krökkum í bóknámi. Á öðrum fundum var venjan að ræða saman í fundarherberginu um ýmis málefni. Ég verð að viðurkenna að umræðuefnin voru misáhugaverð eins og gengur og gerist og sumt fannst mér ekkert sérlega skemmtilegt. Annað er áhugaverðara, eins og t.d. úrræði fyrir nemendur með námsörðugleika ýmis konar og fleira í þeim dúr. Mér fannst mjög sérstakt að heyra viðhorf Kristjáns Ara til mætingarskyldu nemenda. Ég get ekki verið sammála því að nemandi neyðist til þess að mæta 100% í alla áfanga þó svo að ég skilji þau rök að námið og uppsetning þess eigi að krefjast þess í eðli sínu. Hitt er bara staðreynd að sumir nemendur geta leyft sér að gera eitthvað með skóla, t.d. vinna eða stunda íþróttir eða annað nám og staðið sig samt með eindæmum vel þó að það komi niður á mætingu nemandans. Svona dæmi þekki ég mjög vel af eigin reynslu og finnst því varasamt að alhæfa svona um alla nemendur. Það er svo fjölbreytt nemendaflóra sem stundar nám í framhaldsskólum að einstaka mál hljóta að þurfa eða geta farið aðeins aðrar leiðir eða brugðið út af venjunni. Þetta er bara mín skoðun og kemur í sjálfu sér starfsnáminu ekkert við og líka bara í góðu lagi að vera ósammála.   


Alvöru blogg

Þar sem þetta blogg var nú stofnað í nafni námsins míns þá held ég að það sé kominn tími til að skrifa hér eitthvað almennilegt og eitthvað sem telst með í náminu sjáiði til!

 Eitt af því sem er stór hluti af náminu er starfsnám á vettvangi. Ég er í Borgarholtsskóla og er þar undir verndarvæng jarðfræðikennaranna ásamt henni Þórhildi sem er líka jarðfræðiframhaldsskólakennaranemi eins og ég. Okkar skylda í þessum hluta námsins er að uppfylla ákveðið margar stundir í áhorfi (sem felst í að horfa á aðra kennara), aðstoð og svo eiginlegri æfingakennslu. Jarðfræðinemendurnir í NÁT 113 í Borgó fóru í jarðfræðiferð um daginn og við Þórhildur skelltum okkur með undir því yfirskini að þetta væri bæði áhorf og aðstoð:)

Veðurspáin var ekkert sérstök og það rigndi látlaust þennan morgun en engu að síður virtust margir láta sér það nægja að koma á gallabuxum og hettupeysu. Gönguskór virðast ekki tilheyra orðaforða þessara nemenda og segja má að sést hafi skór á öllum skalanum! húfur, vettlingar, regnföt, nesti, skriffæri, myndavélar og ullarsokkar fengu að vera eftir heima hjá þeim flestum. Fyrsta stopp var við Rauðhóla og sá frábæri staður aðeins skoðaður og þar gafst einnig fínt tækifæri til að vekja þá sem þegar höfðu dottað. Síðan var haldið áfram sem leið lá Nesjavallaleið til Þingvalla, þar gengið niður Almannagjá og ýmislegt skoðað. Síðan var keyrt áfram Lyngdalsheiðina yfir að Laugarvatni og þar var góð sjoppuhádegispása. Síðan var keyrt að Geysi og Gullfossi, stoppað á báðum stöðum og aðeins rölt um. Í rútunni voru kennararnir nánast óstöðvandi í að segja frá og skýra allt sem fyrir augu bar og ég trúi að mörgum hafi þótt þetta heldur stór skammtur af jarðfræðilegum upplýsingum. Ekki var laust við að kennaranemunum í hópnum þætti helst til nóg um líka. Ég hefði hagað hlutunum aðeins öðruvísi að þessu leyti. Hins vegar var ferðin að flestu leyti mjög vel skipulögð. Stoppin voru fjölbreytt og tóku á mörgum þáttum jarðfræðinnar og ýmislegt fleira kom við sögu. Samt held ég að það hefði mátt virkja nemendur miklu meira. Kannski hefði verið hægt að skipuleggja lítið verkefni í einu stoppinu eða þrautir fyrir nemendahópa. Það mætti líka láta nemendur vinna verkefni á undan eða eftir sem tengdist ferðinni svo þau tækju betur eftir og hefðu meiri möguleika á að tileinka sér og læra pínku jarðfræði ;)

Hér með er komin mín fyrsta kennslufræðilega færsla um reynslu mína í jarðfræðiferð :) 


Mér finnst rigningin ekki lengur góð...

Veit einhver hvað er málið með rigninguna? Ég hef fylgst frekar náið með veðri og veðurspá það sem af er hausti vegna þess að ég er alltaf að bíða eftir tveimur þurrum dögum í röð til að geta farið í útivinnu á Reykjanesi og það tækifæri hefur komið einu sinni frá því um miðjan ágúst! Einhverra hluta vegna hefur regngallinn líka verið notaður með hvern einasta dag á hjólinu... 

Rólega af stað...

Bloggið mitt fer rólega af stað en það er að stórum hluta vegna þess að ég veit ekki alveg hvernig ég á að hafa það. Mig langar að skrifa svona hitt og þetta eins og "venjulegt blogg" en svo koma líka svona kennslufræðilegar færslur sem voru náttúrulega ástæða þessarar síðu. Líklega hef ég þær bara með sérstakri fyrirsögn svo þetta verði skýrt.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Skólinn er rólegur og góður en reyndar nokkur tímafrek verkefni framundan og ég er kannski ekki alveg nógu dugleg að lesa allt sem ég gæti lesið ;). Vinnan gengur líka bærilega, t.d. var ég í mjög skemmtilegri sýnatökuferð á Reykjanesi í gær, en oftast sit ég fyrir framan tölvuna.

Einhvern tímann er allt fyrst...

Jæja það hlaut að koma að því! Ég er komin með bloggsíðu. Þetta er nú þó ekki gert af fullkomlega fúsum vilja því þetta er hluti af námi mínu í kennsluréttindanámi, liður í námskeiðinu Upplýsingatækni í skólastarfi. Þess vegna verða hér oft færslur sem tengjast kennslufræðilegu málefni en ég er að hugsa um að skrifa hér líka eitt og annað skemmtilegt.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband